18 maí 2011

Peru II

Dagarnir líða hratt hèrna í Perú. Síðast þegar èg skrifaði vorum við í rútu à leiðinni i bæ sem heitir Parancas og liggur að Kyrrahafinu sunnarlega í landinu. Gjarnan er talað um Paracas og borgina Pisco í sömu andrá enda liggja þær hlið við hlið. Pisco er einnig nafnið á þjóðardrykk perú-búa sem er virkilega fínt brandí vín

Þann 15. ágúst 2007 varð mjög öflugur jarðskjálfti í Perú, um 8 stig (lókal fólkið vildi meina að hann hefði náð 8.6 stigum - ég hef ekki haft tíma til að kynna mér hvað er til í því). Þetta svæði fór mjög illa út úr hamförunum. Mörg hundruð manns létum lífið og mikid af byggingum hrundi til grunna. Sumar hverjar hundruð ára gamlar, enda á þetta svæði sér sögu allavega frá 700 fyrir krist. Íbúarnir hafa kvartað undan því að hafa orðið útundan í uppbyggingunni eftir skjálftan. Lítið fjármagn skilaði sér á svæðið og því var uppbyggingin lítil og hæg. Þetta má glögglega sjá á svæðinu, frekar hrörlegt allt saman.

Þarna fórum við í tvo nokkuð skemmtilega túra. Annar var bátsferð að eyjum sem kallast Islas de Ballesta og eru stundum kallaðar Galapagos fátæka mannsins. þar sáum við mikið og flott fuglalíf sem og sæljón og höfrunga svo eitthvað sé nefnt. Aðra eins fuglamergð hef ég aldrei séð, enda er það iðnað safna fugladritinu og selja sem áburð.

Síðar um daginn fórum við í skoðunarferð í þjóðgarð (Reserva Nacional de Paracas) sem hýsir þúsundir fuglategunda, tugmilljóna ára gamla steingervinga og jarðlög. Ágætis ferð þar.

Daginn eftir héldum við í borgina Ica, sem er skammt í burtu. Þar fórum við m.a. í vínsmökkun og fengum kynningu á vinnsluferlinu. Því miður voru við ekki á uppskerutíma því þá er víst svaka stemming að stappa á berjunum og drekka og dansa.

Eftir vínsmökkunina héldum við til Huacachina sem er pínulítið þorp byggt í kringum vin sem er í eyðimörkinni sem umleikur Ica. Þetta var býsna flott sjón að sjá allt í einu tjörn umkringda vatni og trjám, og að sjálfsögðu veitingahús og sölumenn.
Þarna fórum við á sérstökum grindarbílum og keyrðum um eyðimörkina og stukkum fram af sandhengjum og yfir hóla. Einnig voru sandbretti með í ferðinni sem við renndum okkur á niður þverhnípta sandhóla og hæðir. Virkilega gaman og vonandi mun ég fyrr en síðar setja inn myndir.

Núna erum við í miðri 17 tíma ferð með næturrútu á leiðinni til Cuzco, þaðan sem við röltum áleiðis upp í Machu Picchu.Í beinni loftlínu er ferðin ekki margir kílómetrar. Það er hins vegar hægara sagt en gert að feta sig upp Andersfjöllin. Vegirnir eru hlykkjóttir í snarbröttum fjallshlíðunum og því um að gera að fara varlega.
Ég veit ekki hvernig myndirnar koma út. Þetta er allavega tilraun til að sýna útsýnið sem við höfum. Myndirnar teknar á símann út um glugga á rútunni á blússandi ferð.

Kveðja úr Andersfjöllunum, Andri Valur, Guðný, Þórólfur og Lára.
- Posted using BlogPress from my iPhone

Engin ummæli:

Skrifa ummæli