24 maí 2011

Perú III

Einn megintilgangur ferðarinnar til Perú var að heimsækja Inka-borgina Machu Picchu. Það hafðist loksins eftir langt og strembið fimm daga ferðalag. (Sökum internet-leysis var ekki hægt að koma ferðasögunni fyrr á netið.)


Það eru margar mögulegar leiðir til að komast þarna uppeftir. Við völdum sannanlega ekki auðveldustu leiðina, völdum göngu sem heitir eftir fjallinu Salkantay og tekur fimm daga og fjórar nætur, fer hæst í nærri 5.000 metra yfir sjávarmáli og lægst í um 1.500m og hitinn er á bilinu 0-30 gráður. (National Geographic setti þessa göngu á lista yfir 15 bestu göngur heims)


Dagur 1

Dagurinn hófst snemma. Klukkan var stillt á 4:00 og brottför áætluð hálftíma síðar.
Eins og heimamanna er siður var lagt í'ann svolítið seinna en upphaflega stóð til.
Við byrjuðum á þriggja klst rútuferð í þorp sem heitir Mollepata (2.700m), þar sem við fengum morgunverð og hittum fólkið og leiðsögumanninn sem við kæmum til með að ferðast með næstu daga.
Rútuferðin var reyndar nokkuð áhugaverð. Við fórum með local bus sem var alltaf að stoppa og taka fólk upp í og skila öðru af sér. Sannkölluð sveitarúta.

Eftir morgunverð var gengið af stað. Fyrsti leggurinn var um 3 klst ganga þar til við fengum hádegismat, komin upp í 3.315m.
Auk leiðsögumanns var kokkur, aðstoðarkokkur og "hestamaður" sem sá um hrossin og asnana sem báru hluta af farangrinum.
Eftir mat hélt gangan áfram uns við komum um 17 leytið innst í dalinn Soraypampa (3.750m) þaðan sem glæsilegt útsýni var upp í Salkantay fjallið og um 18km að baki. Þegar myrkrið skall á var fegurðin ótrúleg. Kolniðamyrkur, enda ekkert rafmagn, himininn svo stjörnubjartur að hann var nánast hvítur og sást í hvíta snæviþakta toppa annars vegar Salkantay (6.271 metra hátt) og hins vegar Huamantay (5.450 metra hátt). það var eins og tindarnir væru upplýstir, svo bjartir og hvítir voru þeir. Án eða ein fallegasta náttúra sem undirritaður hefur upplifað.

Um nóttina sváfum við í litlum (Rúmfatalagers) kúlutjöldum á grjót/malarplani, á dýnum sem voru á þykkt á við kreditkort með góðri heimild!
Þetta var svefnbúnaður okkar næstu þrjár nætur.

Dagur 2

Ræs kl 4.30 og langur dagur framundan. Við vorum vakin og okkur fært heitt kóka-te inn í tjald. Það var engu að síður erfitt að koma sér á fætur, enda hitastigið rétt um frostmark, kolniðamyrkur og líkaminn svolítið stirður eftir fyrsta daginn.

Fyrsti dagurinn gekk ekki alveg áfallalaust fyrir sig því háfjallaveikin lét aðeins sjá sig í íslenska hópnum og slappleiki, höfuðverkur ofl. í samræmi við það. Eftir yfirlegu var ákveðið að borga nokkrar krónur aukalega og sitja fyrsta legg morgundagsins á hestbaki enda var um að ræða hækkun úr 3.750m í 4.600m upp undir Salkantay og ekki víst að allir í hópnum myndu þola þau átök.

Sumir sátu asna en ekki hest og einn fékk ekki að "stýra" sínu hrossi (það þrengir hringinn þegar ég segi að ég, fyrrum bronsverðlaunahafi í fimmgangi, var með minn taum.) Ferðin upp gekk ljómandi vel. Þegar göngufólkið kom uppeftir lágum við í sólbaði og einbeittum okkur að því að anda, enda ekki vanþörf á í þessari hæð.

Við stödd uppi í tæplega 5 þúsund metrum og Sarkantay í baksýn.


Sjálfsmynd af okkur Guðnýju.
Áfram var haldið, nema nú lá leiðin niður á við til móts við frumskóginn. Um tíma var þetta eins og að ganga um hálendi Skotlands.

Skoska hálendiðEn á endanum komum við niður í skóginn. Þar fann undirritaður m.a. villt ber sem heita Mora og smakkastst svipað og íslensk rifsber.

Mora-berry. Býsna bragðgóð.
Guðný, Þórólfur og Lára ásamt Walter leiðsögumanninum okkar.

Dagurinn endaði í Collpapampa (2.730m) og um 19km að baki. Tjöldunum var tjaldað á grasi, sem var mun bærilegra en mölin fyrstu nóttina.


Tjaldsvæðið þar sem við gistum. Takið eftir glæsilegu tjöldunum.

Ferðasagan fyrir næstu tvo daga mun vonandi birtast hérna á morgun. 

- Posted using BlogPress from my iPhone

Engin ummæli:

Skrifa ummæli