31 maí 2011

Perú IV

Dagur 3

Dagurinn var tileinkaður göngu um frumskóginn. Vöknuðum um 7 leytið og fengum heitt te inn í tjald. Eftir morgunverð var rölt af stað.

Í skjóli þess að um nokkra lækkun var að ræða vorum við í upphafi bjartsýn að ganga dagsins yrði nokkuð þægileg.

Hún reyndist nú samt lúmskt erfið því stígurinn gegnum skóginn var sjaldnast sléttur og beinn, heldur hlykkjóttur upp og niður sem og hægri vinstri.

Við sáum allskonar ávexti á leiðinni og rættist þarna gamall draumur minn að tína og borða villt jarðarber út í skógi. Berin voru lítil og smökkuðust mjög vel, akkúrat eins og svona ber eiga að smakkast.
Einnig fundum við ástaraldin (e. passion fruit), villta banana, ananas (einhvern ættingja), melónur, avocado, lime, kaffibaunir og ég veit ekki hvað og hvað.
Við sáum ekki bara ávexti heldur rákumst við t.d. á svín á rölti.
Það var alveg magnað í þessari göngu hvað við rákumst oft á sölufólk og litlar sjoppur. Það var sama hversu hátt við vorum eða hversu langt frá næstu þyrpingu, alltaf gat maður reglulega keypt sér ískalda kók.
Eftir hádegi komum við til Sahuayaco (Lucmabamba) þar sem við borðuðum áður en við fórum með rútu til Santa Teresa þar sem við gistum þriðju nóttina.

Nú sjá væntanlega margir fyrir sér rútu en reyndin er sú að þetta var ekki eiginleg rúta heldur sendibíll af gerðinni Jin Bei frá framleiðandanum Haise, með bekkjum fyrir farþegana. Í okkar tilfelli vorum við 18 í bílnum að meðtöldum bílstjóra og aðstoðarmanni hans sem hékk hálfur út úr bílnum.Við komumst að sjálfsögðu heil á leiðarenda til Santa Teresa. Daginn enduðum við í heitum náttúrulegum laugum, þar sem heitt vatn sullaðist út úr klettaveggjum. Mjög handhægt.
Dagur 4

Síðasti göngudagurinn fyrir Machu Picchu.
Plan dagsins var að ganga meðfram ánni Urubamba, sem liggur því sem næst hringinn í kringum M.P. í bæinn Aguas Calientes sem er miðpunktur flestra ferðalanga sem sækja Inkaborgina heim.

Dagurinn byrjaði nokkuð vel því kokkarnir höfðu bakað fyrir hópinn þessar fínu kökur (miðað við aðstöðuna sem kokkarnir höfðu er þessi bakstur því sem næst kraftaverk).Annars fór dagurinn að mesti bara í göngu um skóg, meðfram lestarteinum áleiðis í bæinn þar sem við kæmum til með að gista.
Á tímabili gengum við aftan við fjallið sem hýsir Inkaborgirnar og sáum örlítið brot af þeim aftanfrá, það gaf smá "kick" fyrir restina af göngunni.

Svo þurfti að nesta sig vel fyrir gönguna.
Svo komum við undir myrkur á áfangastað og fengum eigin hótelherbergi. Það var virkilega ljúft að leggjast í rúm, þó svo að nóttin yrði stutt því það var ræs klukkan 3:45.
Engin ummæli:

Skrifa ummæli