15 maí 2014

Ferðasaga annar hluti - Jórdanía

Klukkan að verða þrjú að næturlagi lenti vél Lufthansa örugglega á Rafic Hariri flugvellinum í Beirút höfuðborg Líbanon. Í tollinum lenti ég í smá vandræðum þar sem ég hafði ekki sett inn heimilisfang á umsókn mína um vegabréfsáritun. Ég hafði ekki hugmynd um heimilisfang Guðnýjar (ekki hún heldur eða aðrir landsmenn ef út í það er farið sbr. fyrri pistill). Ég var dreginn til hliðar á skrifstofu sem hafði að geyma síma, faxtæki og ljósritunarvél/skanna auk skrifborðs og nokkurra stóla. Þaðan var hringt í Guðnýju og hún beðin um heimilisfang þar sem ég myndi dvelja. Vitanlega var nóg fyrir hana að nefna hótelið því það hefði engin hjálp verið í því að vita götuheitið og númerið. Að loknum þessum detour var ég laus allra mála og fékk inn í landið.
Í þetta skiptið var stoppað stutt í Líbanon því eftir að hafa sofið út héldum við seinni partinn aftur á flugvöllinn. Nú var ferðinni heitið til Amman höfuðborgar Jórdaníu. Þarna á milli er í raun örstutt. Flugið tók um 50 mínútur en hefði líklega ekki þurft að taka nema 20 mínútur. Við fórum nefnilega lengri leiðina.
Flugleiðina má sjá á kortinu. Gula línan sú leið sem við höfðum þegar flogið og sú græna leiðin sem var eftir.
Af hverju þessi leið er flogin hef ég ekki hugmynd um. Ég get ímyndað mér að þetta snúist annars vegar um það að fljúga ekki yfir land Pelestínu þar sem ísraelar hafa komið sér fyrir. Hins vegar að þetta snúist um að safna hæð áður en flogið er yfir Sýrland. Þetta er nú samt bara gisk hjá mér. Ég þyrfti að spyrja einhverja autopilot tölvu út þetta!
Er við lentum á Queen Alia flugvellinum í Amman var orðið áliðið og komið kvöld er við mættum á hótelið. Það gafst því ekki mikill tími til að skoða borgina. Þó fórum við á veitingastað sem er vinsæll meðal heimamanna og fengum þar dýrindis hummus og fleira góðgæti. Einnig sáum við mann með þrjár eiginkonur rífast við mann með tvær eiginkonur (báðir hópar með slatta af börnum) rífast um hvor ætti rétt á að setjast á borðið við hliðina á okkur. Eigandi staðarins kom og leysti úr málinu. Sá með færri eiginkonurnar hafði komið á undan og átti því réttinn. Hinn fór með eiginkonurnar þrjár og börnin á brott. Hann gat líklega ekki hugsað sér að borða þarna eftir þessa niðurlægingu; að tapa fyrir manni með færri eiginkonur.
Veitingastaðurinn fíni. Allt borðað með höndunum að sið heimamanna.
Nú er kominn háttatími því á morgun er ferðinni heitið til Petru eftir Kings highway sem er leið sem menn fóru fyrst löngu áður en Náttfari nam Ísland fyrstur manna (á eftir pöpunum sem eru einhverra hluta vegna aldrei taldir með, en á undan Ingólfi Arnarsyni). Nánar um það í næsta pistli.
Opinberlega heitir landið Jórdanía konungsríki Hasemíta en er í daglegu tali kallað Jórdanía. Landið er svolítið minna en Ísland eða um 89 þúsund ferkílómetrar. Ísland án Vestfjarða er ríflega 94 þúsund ferkílómetrar.

Jórdanía deilir landamærum með Palestínu (ísrael) í vestri, Sýrlandi í norðri, Írak í norðaustri og Sadí Arabíu í austri og suðri. Íbúar landsins eru nærri 8 milljónir.

Góður hluti landsmanna á rætur að rekja til nágrannaríkja þar sem stríð hafa geysað og fólk flúið yfir til friðsæla konungsríkisins. Meðal annars er talið að allt að þriðjungur landsmanna séu Palestínumenn.

1 ummæli:

  1. Vei gaman að lesa! Þú ættir að ferðast oftar svo þú getir bloggað svona ;)
    Btw. ég var á þessum slóðum fyrir 24 árum! Var á Kýpur og sigldi yfir til Ísrael og Egyptalands. Knús á Guðnýju!

    Kv. Huld

    SvaraEyða