22 maí 2014

Fimmti hluti - Sofið undir berum himni í eyðimörkinni

Nóttin í tjaldinu reyndist ekki jafn köld og gert hafði verið ráð fyrir. Mér var frekar heitt og Guðnýju var ekki kalt. Þegar við vorum rétt lögst í bedda (það voru rúm í tjaldinu okkar) heyrðum við skrítið hljóð sem við reyndum að bera kennsl á. Guðný taldi að þetta væru hrotur. Mér þótti það ólíklegt þar sem hópurinn (10 manns) fór allur á sama tíma í tjöldin og það væri líklega heimsmet ef einhver væri sofnaður og byrjaður að hrjóta fimm mínútum eftir að við fórum úr matartjaldinu. Þar sem ég hafði enga betri tillögu að upphruna þessa skringilega hljóðs sætti ég mig við tilgátuna. Nokkar mínútur liðu og þá heyrðist allt í einu þetta skrítna hljóð í ábyggilega 7-8 sekúndur samfleytt. Þá var ljóst að þetta gátu ekki verið hrotur. Ekki nema það væri hvalur að hrjóta eða einhver sem hefur fullkomna þá list að hrjóta samfleytt, þ.e. að hrjóta jafn á innsogi og útblæstri án þess að stoppa á milli. Mætti kalla það einhvers konar jóga-hrotur.

Þetta lítur ekki út fyrir að vera tjald á þessari mynd en er það samt. 

Auðvitað hélt þessi óvissa fyrir mér vöku. Ekki hljóðið sjálft heldur það að vita ekki hvaðan það barst. Að endingu rann þetta upp fyrir mér. Gædarnir sátu úti og voru að reykja Shishu eða vatnspípu. Hljóðið kom þegar reykurinn var soginn gegnum vatnið. Þá má ábyggilega heyra svona hljóð í einhverju lagi með Cypress Hill.

Allavega þá vorum við stödd í Wadi Rum eyðimörkinni sem T.E. Lawrence (eða Arabíu-Lawrence sbr. frábær bíómynd Lawrence of Arabia) fjallaði um í bók sinni Seven Pillars of Wisdom. Eyðimörkin er stór eða um 100 km. frá norðri til suðurs. Þó er ekki nema hluti hennar verndarsvæði eða um 720 ferkílómetrar (ég las einhvern tímann að höfuðborgarsvæðið væri um 1.000 ferkílómetrar en segi það án ábyrgðar). Þarna hefur þjóðflokkur Beduina búið í margar aldir. 

Þegar rætt er um eyðimörk sjá margir fyrir sér sand (eðlilega!) og ekkert annað. Eflaust eru sumar eyðimerku bara sandur en þessi er það ekki því um allt eru klettar, bæði stórir og litlir og jafnvel heilu fjöllin. Hæsti kletturinn er til að mynda 1.840 metrar á hæð (270 metrum lægra en Hvannadalshnjúkur) og mætti því jafnvel kalla fjall frekar en klett.

Guðný í eyðimörkinni

Í grennd við eina uppsprettuna stóð eitt tré sem
ku vera mjög gamalt.

Þarna er að finna þó nokkrar lindir og vinjar og var svæðið mjög mikilvægt þeim sem þar fóru um á öldum áður. Er meðal annars að finna áletranir (e. inscriptions) í klettunum frá því 4.000 árum fyrir krist þar sem ferðalöngum var vísuð leiðin að næstu uppsprettu og hvert væri best að stefna o.s.frv. Mjög áhugavert.

þarna má m.a. sjá áletrun þar sem kona er að fæða barn. 

Allar hafa þessar áletranir þýðingu. Ég man samt ekki hvað þær þýða!

Eftir nóttina í tjaldinu vörðum við deginum á rúnti um eyðimörkina á gömlum Landcruiser jeppa ásamt leiðsögumanninum okkar honum Aíd. Við stoppuðum reglulega í tjöldum hjá heimamönnum sem bjuggu í eyðimörkinni og þáðum te og spjölluðum. Gædinn okkar var nokkuð vinsæll því hann var með Shishuna (vatnspípuna) sína með í för og bauð upp á smók.

Við skoðuðum ýmis flott svæði, uppsprettur, kletta, gil og nutum kyrrðarinnar. Undir lok dags horfðum við á sólsetrið á meðan gædinn kom upp litlum búðum þar sem við elduðum dýrindis máltíð og sváfum svo undir berum himni um nóttina. Það var hreint út sagt ólýsanlegt að liggja þarna í kyrrðinni og sofa undir stjörnubjörtum himni og tunglsljósi. Klárlega hápunktur ferðarinnar. Best að leyfa bara myndunum að tala sínu máli. 

Guðný að labba upp sandbrekku mikla! 

Andri Abdullah virðir fyrir sér útsýnið.Í heimsókn hjá Bedúína sem bauð að sjálfsögðu upp á te.


Þessi var meistari heim að sækja. Hann gaf mér munntóbak sem
hann hafði búið til sjálfur. Ég gaf honum íslenskan rudda í staðinn. 

Guðný prinsessa af Nielsen.
Fyrsti áningarstaður. Þarna elduðum við hádegismatinn.

Toyota er vinsæl í eyðimörkinni.Þarna er parið búið að klifra upp á þennan fína klett. Tunglið sést í baksýn.

Sólsetur í Wadi Rum. Næstum jafn fallegt og sólsetrið í Skjálfandaflóa.

Áningarstaður tvö. Þarna var eldað og gist yfir nótt.


Herbergið okkar!

Guðný að bíða eftir að maturinn verði tilbúinn.

Maturinn klár. Reyndar frábær matur sem við fengum þarna í myrkrinu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli