19 maí 2014

Fjórði hluti - Petra og lögreglumenn sem töluðu ekki ensku

Að vana tókum við daginn snemma og lögðum nú leið okkar inn í hina fornu borg Petru. Það er óþarfi að eyða mörgum orðum í að segja frá borginni. Ekki af því borgin er ekki áhugaverð, síður en svo, heldur er þetta upplifun sem verður aldrei lýst almennilega í orðum.
Petra þýðir steinn eða klettur enda er um að ræða heila borg sem er höggvin inn í kletta á stóru svæði. Þarna eru einhver 500 grafhýsi, leikvangur eða leikhús og allskonar minjar og fegurð sem erfitt er að lýsa í orðum.

Eins og Machu Picchu var borgin "týnd" og uppgötvuð á ný árið 1812 af svissneskum landkönnuði. Borgin er, eins og ég hef áður nefnt, eitt af sjö undrum veraldar og algjörlega þess virði að heimsækja.
Til að komast inn í borgina þarf að ganga inn gil sem er
ríflega kílómeter að lengd. Við endann kemur maður
inn á stórt opið svæði þar sem þetta grafhýsi blasir við.

Einn svefnherbergisglugginn.

Það tók mörg hundruð ár að "smíða" borgina.
Hversu mörg hundruð er ekki vitað.

Selfie með hluta af Petru í baksýn.
Á göngu okkar um borgina villtumst við um tíma. Kannski ekki beinlínis villt því við vissum nokkurn veginn hvar við vorum. Meira að við vorum komin út úr helsta svæðinu þar sem túristarnir voru. Þá rákumst við á þetta fína bílskýli. Ótrúlega framsýnir þessir Nabatear (þjóðflokkurinn sem byggði Petru) að gera svona fínt skýli.
Gamall bíll í gamalli borg!
Þegar við höfðum gengið borgina þvera og endilanga var tími kominn á næsta áfangastað sem var Wadi Rum eyðimörkin. Þar ætluðum við að dvelja næstu tvær nætur. Hótelið hafði útvegað okkur leigubílstjóra til að keyra okkur þessa tveggja klukkustunda leið (tími ku vera betri mælikvarði en kílómetrar á þessum slóðum). Leigubílstjórinn var reyndar ekki leigubílstjóri heldur bara bílstjóri. Hann ók gömlum Nizzan Sunny og svo óheppilega vildi til að hann var ekki sérlega vel búinn bílbeltum.

Reyndar var hann ágætlega búinn bílbeltum því það voru alveg jafn mörg belti í þessum bíl og í öðrum bílum sem taka fjóra farþega. Vandamálið var að þessi bíll hafði eingöngu einn "gaur" til að stinga beltinu í og festa það. Því voru góð ráð dýr. Við veltum því fyrir okkur hvort við ættum að taka steinn, skæri, blað upp á hvort okkar fengi að spenna beltið. Endanleg niðurstaða var sú að flækja beltin tvö einhvern veginn saman og vona það besta.

Ferðin gekk áfallalaust fyrir sig þar til við gáfum fram úr manni á einu hestafli. Sá var með hestinn í hvínandi botni svo það spýttist grjót undan hófum hans, sem skullu af miklum krafti á Nizzan Sunny er honum var ekið fram úr á fullri ferð. Bílstjórinn stöðvaði snarlega og hélt reiðilestur yfir knapanum, sem var hress eldri maður. Sá sat á baki og skellihló, sem gerði okkar mann pirraðan. Líklega var hann að hlægja því bíllinn var rispaður og beyglaður allan hringinn og því ómögulegt að átta sig á því hvort grjótið frá hestinum hafi valdið einhverjum skemmdum.

Málið var leyst þannig að við spóluðum af bræði af stað og knapinn hélt áfram að hlægja. Gekk ferðin áfallalaust fyrir sig um stund eða þar til lögreglan stöðvaði okkur við reglubundið eftirlit. Við Guðný sátum eins og hálfvitar með beltin flækt saman í baksætinu þegar lögreglumaðurinn kom að bílnum. Hann taldi vissara að skoða vegabréfin okkar.

Nú hófst áhugaverð atburðarás. Bílstjórinn og lögreglumennirnir rökræddu um stund. Almennt er talið að þeir síðarnefndu hafi gert athugasemd að bílstjórinn væri að keyra farþega gegn gjaldi án þess að hafa tilskilin leyfi (talið er ólíklegt að þeir hafi verið að gera athugasemd við bílbeltin). Lögreglumennirnir áttu eitthvað vantalað við okkur Guðnýju en töluðu ekki ensku. Staðan var því sú að sá eini á svæðinu sem talaði bæði ensku og arabísku var sakborningurinn, bílstjórinn. Að láta sakborning túlka yfirheyrslu yfir vitnum er vond hugmynd. Því var brugðið á það ráð að stöðva næstu bíla þar til næðist í einhvern sem gæti túlkað fyrir lögregluna. Á meðan við biðum kom eldri maður ríðandi fram hjá á úlfalda og glotti til okkar. Ekki var kannað hvort hann talaði ensku enda það talið ólíklegt. Loks kom leigubíll sem ekið var af bílstjóra sem kunni ensku. Yfirheyrslan var í raun bara ein spurning; hvað við hefðum greitt fyrir aksturinn. Á endanum leystist málið og við fengum að halda áfram. Líklega hefur skipt máli að við höfðum greitt sanngjarnt verð (teljum við), þ.e. að bílstjórinn var ekki að svindla á okkur. Mögulega hefur það líka skipt máli að ef við hefðum ekki getað haldið ferðinni áfram með bílstjóranum hefðum við verið stödd út í svokölluðum buska sem hefði ekki verið sniðugt.

Leiðarendi var í tjaldbúðum út í miðri eyðimörkinni (þá vorum við komin úr leigubílnum og í jeppa). Þar höfðum við fengið úthlutað okkar eigin tjaldi. Eins og það getur orðið heitt í eyðimörkinni á daginn getur orðið býsna kalt þar á næturnar. Það stefndi því í kalda nótt. Meira um það næst.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli