07 maí 2014

Ferðasaga fyrsti hluti - Líbanon

Nú er ég staddur í Frankfurt, fjármálahöfuðborg Þýskalands og bíð eftir flugi til Beirút, höfuðborgar Líbanon. Reyndar er nú þegar búinn að bíða í tæplega fimm klukkustundir og enn eru tvær til viðbótar þar til flugvélin tekur á loft.

Næsta stopp er sem fyrr segir Beirút. Þar býr ástkona mín og ætlar að taka á móti mér á flugvellinum þegar ég lendi kl. 2.30 að staðartíma. Það er frábært. Fyrir utan að það verður frábært að hitta hana, eftir nokkra mánaða aðskilnað, þá eru heimamenn víst ekki mjög sleipir í götunöfnum. Þau eru víst ekki notuð sérlega mikið. Þegar maður tekur leigubíl í Beirút er víst betra að þekkja kennileiti nálægt áfangastað frekar en að vita heimilisfangið. Ég get ímyndað mér að þetta sé eins og ef ég bæði leigubílstjóra að skutla mér heim á Bragagötu þá myndi hann ekki rata en ef ég bæði hann að skutla mér á veitingastaðinn Þrjá frakka, sem er skammt undan, væri hann á heimavelli. Það er því ekki víst að ég myndi enda á réttum stað ef ég færi einn í leigubíl og reyndi að koma mér í bæinn.
Eina myndin sem hefur verið tekin á ferðalaginu hingað til.

Fyrir utan að „hanga" í Frankfurt tók ég stuttan rúnt niður í bæ. Að gættri allri nákvæmni þá tók ég lest á Frankfurt main Hbf. sem er Hlemmur og BSÍ borgarinnar. Þar gekk ég einn hring og vonaðist eftir að finna Laugaveg heimamanna og fá mér fínt kaffi og taka því rólega. Þegar ég hafði gengið fram hjá Black hair saloon og Queen of Africa resturant ásamt sirka sjö ólystugum ónefndum stöðum, fór ég aftur á Hovedbanen og fékk mér ostborgara á McDonalds og hélt aftur upp á flugvöll. Á svona dögum væri gott að eiga Platinum kreditkort og fá inn í betristofurnar með fína fólkinu.

Ferðaplanið er nokkurn veginn þannig að á morgun (fimmtudag) höldum við til Jórdaníu. Fyrsti áfangastaður er höfuðborgin Amman þar sem við gistum eina nótt. Því næst höldum við í ferðlag sem verður fjallað um síðar. Ég er gríðarlega spenntur fyrir því að leigja bílaleigubíl og keyra sjálfur. Held að ég geti kennt heimamönnum margt þegar kemur að akstri. Einhverra hluta vegna er betri helmingurinn ekki jafn spenntur fyrir því. Við sjáum hvað setur.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli