16 maí 2014

Þriðji hluti - Ökuferð, Sögusvið Biblíunnar og mállaus Frakki

Snemma morguns vaknaði Guðný við vekjaraklukkuna og vakti mig. Við vorum reyndar búin að vakna nokkrum sinnum um nóttina við óþekkt hljóð og nokkrum sinnum við þekkt hljóð. Það er nefnilega þannig að upp úr fjögur að morgni byrjar messukall eða moskukall eins og heimamenn kjósa að nefna það. Þá er sönglað hátt og skýrt í hátalarakerfi moskunnar og fólki bent á að tími sé kominn á tilbeiðslu. Við þetta vakna allir. Líka þeir sem ætla ekki í mosku.

Dagskráin þennan dag hljóðaði upp á að fara með leigubíl gamla þjóðleið sem kallast King's highway og liggur gegnum endilanga Jórdaníu frá norðri til suðurs eða öfugt. Ásamt bílstjóranum var með í för þriðji maður. Sá er talinn franskur og heitir líklega Oui (borið fram Víí). Alltént brosti hann og sagði Víí þegar hann var spurður til nafns. Bílstjórinn tjáði okkur þessar upplýsingar. Sagðist hafa farið með hann einan í ferð um norður og austur Jórdaníu tveimur dögum áður. Þetta hefði verið ákveðið vandamál því bílstjóranum þætti gaman að tala og því ómögulegt að vera einn með farþega sem ekki gat hlustað. Í hvert skipti sem þeir stoppuðu til að skoða eitthvað merkilegt stóðu þeir tveir saman og reyktu sígarettur og horfðu þöglir. Frakkinn tók svo nokkrar myndir.
Við Guðný og bílstjórinn kunnum samtals skil á íslensku, þýsku, spænsku, arabísku, skandinavísku, japönsku og ensku. Víí kunni ekkert þessara tungumála og ekkert okkar gat staðfest að hann talaði frönsku.

Ferðin byrjaði reyndar ekki mjög vel. Við höfðum ekki ekið lengi þegar Zeyad bílstjórinn okkar, heimamaður á sextugsaldri, ræskti sig, hóstaði og saug upp í nefið allt í einu svoleiðis að munnurinn á honum fylltist af slími. Guðný sat aftur í og kúgaðist. Þetta reyndist þó bara hafa verið undirbúningur fyrir ferðina því ekki bar aftur á svona tilburðum.
Ferðin var annars mjög fín. Við fórum á topp fjallsins Nebo þar sem Móses hafði áður staðið og séð fyrirheitna landið og síðar dáið að skipan Drottins. Í Biblíunni segir meðal annars í fimmtu Mósebók 32:49-50 þar sem sá uppi sagði við Móses:
„Farðu upp á Abarímfjall, fjallið Nebó í Móabslandi, gegnt Jeríkó, og horfðu yfir Kanaansland sem ég fæ Ísraelsmönnum til eignar. Þú átt að deyja á fjallinu sem þú gengur upp á og safnast til þíns fólks eins og Aron bróðir þinn dó á Hórfjalli og safnaðist til síns fólks, 
Frá fjallinu sáum við yfir til Palestínu (ísrael) og sáum meðal annars borgina Jericho. Ég komst loks að því hvað þetta Jericho var sem sungið var um í samnefndu lagi Prodigy um árið. Einnig skoðuðum við flottan kastala í borginni Karak. Sá ku vera mjög gamall, frá því löngu áður en Móses og aðrir úr Biblíunni átti leið þarna um.
Zeyad, Guðný og Víí virða fyrir sér kastalann úr fjarlægð.

Í kastalanum vorum við svo heppin að þurfa ekki að leita að leiðsögumanni heldur kom heimamaður og elti okkur um kastalann (fór eiginlega á undan en elti þegar við beygðum í "vitlausa" átt). Hann var ekkert sérlega vel að sér í því sem kastalinn hafði að geyma en gat oftast sagt okkur hvað herbergin og gangarnir voru langir. Til dæmis var fangelsið 8 metra langt! Fyrir þessa leiðsögn greiddum við svo þóknun.

Við vorum á heppilegum tíma í kastalanum því það var akkúrat tímabært fyrir bílstjórann að biðja til guðs í staðar-moskunni á meðan við skoðuðum svæðið. Eftir að hafa skoðað kastalann fengum við Guðný okkur að borða og buðum Víí að koma með. Víí sagði hann og kom með. Einhver misskilningur átti sér þó stað þegar við pöntuðum matinn. Matseðillinn var að sjálfsögðu á ensku og okkar maður því í vandræðum. Ég ákvað að panta mér kjúkling og sýndist miðað við látbragð að Frakkinn ætlaði að panta það sama. Þó reyndi Guðný að hefja samræður við hann og spyrja hvort hann væri ekki örugglega grænmetisæta. Víí sagði bara víí og brosti, eins og hann hafði gert alla ferðina.
Þegar maturinn kom á borðið fékk ég kjúklinginn sem ég bað um. Guðný og Frakkinn fengu hins vegar gras á diski. Til að toppa þetta fékk vinurinn diet kók en almennt er talið að hann hafi langað meira í venjulegt kók. Eitthvað segir mér að vinurinn hafi verið pirraður. Nema náttúrlega að hann sé í raun grænmetisæta. Um það er ekki gott að segja.
Ég innan borgarmúra kastalans. Leiðsögumaðurinn bíður
átekta eftir að upplýsa okkur um næstu vegalengdir.

Að öðru leyti var ferðin hin fínasta. Að kvöldi dags renndum við inn í Petru þar sem við áttum pantað hótel. Daginn eftir myndum við skoða hina fornu borg Petru sem er eitt af hinum nýju sjö undrum veraldar sem hlutu þá kosningu á árunum 2000-2007. Hin sex eru Kínamúrinn, Jesú styttan í Rio, Machu Picchu Inkaborgin í Perú, Colosseum hringleikhúsið í Róm, Taj mahal ástarhofið í Indlandi og Chichen Itza Mayaborgin í Mexíkó. Píramídarnir í Egyptalandi eiga svo heiðurssæti á listanum sem eina eftirstandandi undrið af upprunalegu sjö undrum heims.

1 ummæli:

  1. Það vantar like- takkann á bloggið ;) LIKE!

    Kv. Huld

    SvaraEyða