13 febrúar 2017

Kúba #2 - Havana

Ferð með skólanum um "gömlu Havana" sem er litskrúðug og falleg.
Enn erum við stödd í Havana. Dagarnir ganga þannig fyrir sig að ég er í spænskunámi fram að hádegi. Í skólanum er svo salsa dansnámskeið strax í kjölfarið sem ég ákvað að sækja ekki. Ég er hreinlega ekki nógu mikill salsa-maður. Svo um miðjan dag er boðið upp á viðburð með skólanum sem getur verið ferð um miðbæinn, á ströndina, á safn o.s.frv. Við höfum aðeins nýtt okkur þetta. 


Guðný á góðri stundu í Havana.
Í skólanum er kennari sem heitir Ingmar í höfuðið á samnefndum sænskum leikstjóra sem var í miklu uppáhaldi hjá foreldrum hans. Þetta varð til þess að ég reyndi að útskýra mannanafnanefnd á Íslandi fyrir kennaranum mínum en varð litið ágengt. Hún skildi ekki af hverju Íslendingur mætti ekki heita þessu fallega nafni í höfuðið á jafn færum leikstjóra. Það hjálpaði henni ekki að skilja þetta þegar ég sagði að hann mætti gjarnan heita Ingimar það væri bara ólöglegt að sleppa heilu "i" í nafninu. Ef fólk vildi heita eitthvað annað en Jóna og Jón þyrfti að fá leyfi. 


Solo Cuba 
Í einni ferðinni með skólanum fórum við út úr bænum með rútu. Þjóðvegir á Kúbu eru ekki ósvipaðir þeim íslensku. Þeir virðast reyndar oftar breiðari, þ.e. fleiri akreinar, og vissulega aldrei með snjó og þar af leiðandi aldrei saltaðir. Bílarnir á vegunum eru jafnframt eldri og oftast er skógur eða tré við þjóðvegina. Vegirnir hér eru hins vegar töluvert ósléttir eins og á Íslandi þannig að líkindin eru nokkur. Reyndar skilst mér á innfæddum að vegirnir hafi batnað mikið hérna síðustu ár öfugt við Ísland. Mögulega kemur maður aftur hingað innan nokkurra ára og þá verða vegirnir umtalsvert betri en heima á Fróni! 

Æskan leikur sér á góðviðrisdögum.


Rússneska sendiráðið í Havana fékk arkitektaverðlaun á sínum tíma. Það er nóg að ýta á einn takka og þá breytist húsið í eldflaug eða risa bíl. Þetta fyrirbæri myndi sóma sér vel í Norðlingaholti. 

Þar til næst - lífi byltingin.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli