22 febrúar 2017

Kúba #3 - Brúðkaup í Havana

Nú er hávetur á Kúbu og það leynir sér ekki. Hitastigið fer sjaldan langt yfir 30 gráður, ekkert avocado til því það er "off season", ananasinn er frekar smár og svona mætti lengi telja. Það er ekki bara neikvætt að hafa vetur því hér rignir ekki á veturna. Það koma jú hitaskúrir stöku sinnum en ekkert sem heitið getur.

Allavega óháð árstíðum þá gerðist það á dögunum að við Guðný gengum í hjónaband hér í Havana. Forsagan er í sjálfu sér ekki löng. Við höfðum keypt ferð til Kúbu þar sem við ætluðum að dvelja allan febrúar. Jafnframt höfum við lengi velt brúðkaupi fyrir okkur; hvar og hvenær. Upp kom sú hugmynd að kannski væri bara flippað og skemmtilegt að gifta sig á Kúbu fyrst við værum á annað borð á leiðinni þangað og hefðum nægan tíma. Úr varð að við redduðum öllum pappírum og gerðum okkur klár í þetta.
Á Kúbu skálar maður í Cuba Libre og Mojito þegar maður giftir sig.
Það vildi svo heppilega til að hinn kúbverski sýslumaður, sem gaf okkur saman, er staðsettur skammt frá skólanum mínum. Í einum frímínútum skutust við Guðný til sýslumanns og könnuðum aðstæður. Kom í ljós að við þyrftum að bíða einhverja stund eftir að fá úrlausn okkar mála. Á þessum tímapunkti héldum við að við værum einungis að panta tíma fyrir giftingu síðar í vikunni. Svo var heldur betur ekki, eins og ég komst að síðar. Ég snéri aftur til spænskunáms en Guðný tók það á sig að sitja þar til röðin kæmi að henni. 
Hann Marcos sýslumaður hélt það nú að það væri lítið mál að gefa okkur saman. 
Ég sat í makindum og ræddi (á spænsku að sjálfsögðu) við kennarann þegar Guðný birtist í skólastofunni og tjáði mér að við værum að fara að gifta okkur eftir 20 mín. Einhvern veginn tókst mér að koma kennaranum í skilning um að gera þyrfti hlé á kennslu vegna fyrirhugaðs brúðkaups. Satt best að segja veit ég ekki hvað hún hefur haldið um þetta hálf bilaða lið frá Íslandi. 
Við fengum ljósmyndara til að festa nokkrar myndir á filmu. Þessa tók hann fyrir okkur á símann minn. Afrakstur hans eigum við eftir að sjá.
Skömmu síðar vorum við mætt á kontór sýsla sem er hinn ágætasti drengur og talaði mjög bærilega ensku sem auðveldaði athöfnina til muna. Ég að sjálfsögðu í stuttbuxum og á bol, enda hávetur og því varla hægt að vera ber að ofan. 
Chevrolet Bel Air '55 módel var fararskjótinn í ljósmynduninni. Þetta er sami bíll og Madonna notaði þegar hún bar í Havana fyrir ekki svo löngu síðan.
Með tímanum hafðist þetta svo allt saman. Svolítið af pappírum að skrifa undir. Fara fram og bíða. Fara eitthvað annað og borga. Fara svo aftur og borga meira. Skrifa undir aðeins fleiri pappíra. Bíða í klukkutíma og þá var allt klárt og við stóðum allt í einu fyrir utan skrifstofu sýslumanns, á stuttbuxum og alveg harðgift. 

2 ummæli:

  1. Þið eruð alveg yndisleg og innilega til hamingju með ykkur tvö, knús og kossar.
    Dóra.

    SvaraEyða
  2. En skemmtilegt :) svona á að gera þetta innilega til hamingu

    SvaraEyða